28.9.2009 | 10:59
Efnahagslausnir fyrir Ísland
Segullestir á ofsahraða kringum landið í stað Icesave afborgana?
Webster G. Tarpley var gestur í Silfri Egils í gær og er með opinn fund í kvöld kl 20 í Reykjavíkurakademíunni (JL-húsið) þar sem yfirskriftin er Efnahagslausnir fyrir Ísland.
Síðastliðinn laugardag fjallaði hann um málefni Íslands í þætti sínum World Crisis Radioá GCN útvarpsnetinu sem er aðallega útvarpað um víð og breið Bandaríkin, en er einnig aðgengilegt á internetinu.
Hér er þýðing á síðustu mínútum þessa þáttar hans:
World Crisis Radio, 26.9.09, Webster Tarpley:
Ísland var lagt í einelti af Gordon Brown á svipaðan hátt og Chamberlain forsætisráðherra Bretlands lagði Tékkóslóvakíu í einelti á Munchen ráðstefnunni 1938. Bretar sögðu þá Tékkum að láta undan kröfum Þjóðverja á ýmsum sviðum, án nokkurs möguleika á umræðu. Þetta er hrokafull meðferð á litlum löndum.
Íslendingar hafa boðist til að borga 6 milljarða Bandaríkjadala, en með takmörkunum að fyrirmynd hugmynda Keynes um takmörkun bóta við greiðslugetu.
Vandamálið við þessar hugmyndir er þó eftirfarandi: Hvað ef skuldin er algerlega ólögmæt, alger uppspuni, alger afbökun og kúgun frá upphafi til enda. Ættir þú þá að bjóðast til að greiða yfirleitt? Ég myndi segja; Nei.
Í tilboði Íslendinga felst takmörkun á greiðslu skulda við 6% af hagvexti . Því miður er misskilningur í gangi varðandi þessi mál. Hinn virti prófessor Michael Hudson, hagfræðiráðgjafi þingmannsins Kucinich, skrifar þann 17 ágúst 2009 í London Financial Times:
Þetta samkomulag er að því best ég veit það fyrsta síðan á þriðja áratug síðustu aldar til að setja takmark á erlendar skuldir við greiðslugetu landsins. Greiðslur Ísland munu verða 6% af vexti umfram landsframleiðslu 2008. Ef lánardrottnar þrengja of mikið að íslenska hagkerfinu, þá verður engin vöxtur og þeir fá ekki greitt.
Því miður stenst þetta ekki. Þetta hefur verið reynt áður og meira að segja á raunsærri hátt en gert er í tillögu Íslendinga. Ég er að tala um stjórn Alan Garcia Perez í Perú frá 1985-1990, en sérstaklega 85-86. Hér er tilvitnum John Crabtree frá Oxford Analytica úr bók hans um efnið:
Undir stjórn Alan Garcia takmarkaði mikið skuldsett land í fyrsta skipti einhliða greiðslur sínar við sitt eigið mat á greiðslugetu. Í setningarræðu sinni, 25. júlí 1985, sagði Garcia: Þið lánardrottnar lands míns, þið IMF, þið alþjóðabanki, þið Þróunarbanki Ameríku, þið Citybank, þið bandarísku viðskiptabankar og aðrir, ég býð ykkur 10% af útflutningstekjum okkar.
10% virðast minni öfgar en 6%, en Garcia var að bjóða 10% af þeim gjaldeyri sem landið fengi fyrir útflutning. Það á betur við í þessum vanda heldur en 6% af hagvexti. Við getum hugsað okkur land sem hefur mikinn hagvöxt, en engan afgang í ríkisfjármálum, engar útflutningstekjur, eða jafnvel verið að taka meiri lán, það er ekki óhugsandi. En þrátt fyrir að lausn Alan Garcia um takmörkun greiðslubyrðar við 10% af útflutningstekjum væri að sumu leyti meira viðeigandi og betur sniðin að vandamálinu, þá mislukkaðist hún.
Vandamálið var nefnilega viðurkenningin. Þegar þú byrjar að greiða, þá má alltaf ætlast til frekari greiðslna. Ef þú einfaldlega neitar með öllu að greiða, þá er einfaldara að standa á sínu. Þegar þú viðurkennir Ja skuldin kann að vera réttmæt, en hæfni mín til að greiða er óviss, þá hefur þú afsalað þér siðferðislegum, lögformlegum og pólitískum fyrirvörum, þú hefur sagt; Ja við eigum í fjárhagslegum vanda, aumingja við, en viðhorfið um að við eigum að borga, er auðvitað alveg rétt.
Hugmyndin virðist vera, bæði í tilfelli Garcia með prósentu af útflutningstekjum og í tilfelli Íslands, með hlutfall af hagvexti, að þá sértu sanngjarnari og raunsærri, þú ert ekki eins ögrandi og ef þú neitar að borga. Vandamálið er að þegar rætt er við banka, þá eru báðar forsendur fordæmdar sem kommúnismi. Bönkunum er alveg sama. Prósenta af vexti: Kommúnismi. Prósenta af útflutningi: Kommúnismi, endalok heimsins.
Hér er svo það sem kom fyrir Alan Garcia: Hann áleit að með hófsömum tillögum þá áynni hann sér eitthvað svigrúm, einhvern góðvilja og fyrirgreiðslu hjá alþjóðlega bankasamfélaginu, en það gerðist ekki. Bankarnir litu á Perú sem gjaldþrota land. Í október 1985 lýstu bandarísk stjórnvöld því yfir að skuldir Perú við bandaríska banka væru verðlitlar. Það þýddi að þeir bankar sem áttu þessar skuldir urðu að setja til hliðar hærri upphæðir í varasjóði. Nefnd sem stýrt var af Citybank var þá sett á fót til að lögsækja Perú. Í apríl árið 1986 krafðist IMF, sem vildi þvinga inn umbótum í formi nokkurs konar nýfrjálshyggju raflostsmeðferðar, tafarlausrar greiðslu á 70 milljónum Bandaríkjadala. Þegar Perú greiddi ekki, þá setti IMF Perú á svarta listann sem óhæft fyrir ný lán, sem þýddi að Perú var í raun orðið að pariah ríki, útilokað frá alþjóðasamfélaginu á sama hátt og Víetnam, Sambía, Sómalía, Gana, Súdan og Líbería. Perú fékk enga fyrirgreiðslu frá Alþjóðabankanum og þróunarbanka Ameríku.
Annað vandamál fyrir Perú var að á þessum tíma voru önnur lönd sem vildu fara alla leið og neita að greiða allar erlendar skuldir sínar. Þau litu réttilega á leið Perú sem hálfkæring og olli það stirðleika í samskiptum milli þeirra landa og Perú. Þannig að ef þú byggir vörn þína á hálfkæringi, þá má sjá mörg dæmi í sögunni um að það mun mistakast.
Garcia áttaði sig á því eftir tvö ár í embætti, að hann hefði átt að þjóðnýta bankakerfið til að knýja fram fjármagn fyrir innlenda framleiðslu og efnahagslegar þarfir landsins, en þá var það orðið of seint, hann hafði misst of mikið af pólitísku umboði sínu og Perú fór í framhaldinu í gegn um mestu efnahagsþrengingar sem gengið höfðu yfir landið á tuttugustu öldinni, ekki var aðeins 10-20% skerðing á innlendum umsvifum heldur einnig óðaverðbólgu upp á að minnsta kosti 4500% á ári.
Í upphafi þrenginganna var þjóðin sammála um að IMF væri um að kenna. En eftir 2-4 ár af stjórn Garcia sögðu margir, ja, IMF er slæmt, en Alan Garcia er líka um að kenna, þannig að nauðsynleg samstaða þjóðarinnar í baráttu sinni gegn þessum alþjóðlegu bankaöflum hafði raskast.
Í samantekt, að neita að borga og að takmarka greiðslubyrði virðast álíka lausnir, en eru í raun andstæðar, ósamrýmanlegar, tveir ólíkir heimar. Strax og þeir segja Við ætlum að uppfylla ensk-hollensku kröfurnar þá lenda þeir fljótt í sporum þýsku stjórnmálamannanna frá 1920, manna eins og Gustav Stresemann sem sagði Við munum reyna að uppfylla kröfur bandamanna. Þeir verða svo erindrekar lánardrottna innan sinnar eigin þjóðar og glíma við gríðarlega hagsmunaárekstra sem voru dæmigerðir fyrir Weimar lýðveldið.
Tarpley lofar frekari umfjöllun um málefni Íslands í næsta þætti sínum af World Crisis Radio.
25% lækkun höfuðstóls lánanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Takk fyrir að kynna þetta, held maður skelli sér bara á þennan fyrirlestur
Adam (IP-tala skráð) 28.9.2009 kl. 12:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.